149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[20:08]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fullyrði að ég hafi ögn lengri reynslu af því að drekka víða en hv. þingmaður, enda er ég töluvert eldri. En að ganga inn á öldurhús í dag eða fyrir 40 árum — ég sé ekki stóran mun. Ég er kannski lengur á vettvangi en hv. þingmaður. En tölur eins og ég nefndi, sem hv. þingmaður vefengdi, þær sem ég hafði uppi um íbúa Kaupmannahafnar, eru úr grein í Politiken. Það er nú hér um bil jafn merkt dagblað og Mogginn, sem ég veit að hv. þingmaður les af áfergju. Við þurfum ekkert að efast um þessar heimildir og við vitum, eins og ég segi, að aukið aðgengi skapar meiri neyslu. Það hefur sýnt sig hér frá 1989. Ég er svolítið eins og tilraunarotta, ég er til í að éta sama ostinn tvisvar ef hann er rafmagnaður en ekki í þriðja skipti. Við eigum ekki að gera sömu mistökin aftur og aftur eins og við erum að gera með þessu frumvarpi.