149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[20:09]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég held að skoðanir hv. þingmanns á frumvarpinu fari ekkert á milli mála. Það var nokkrum sinnum vikið að ártalinu 1989 sem hv. þingmaður taldi greinilega vera nokkurs konar annus horribilis í Íslandssögunni. Mig langar í framhaldi af því að spyrja hv. þingmann hvort við megum eiga von á því að frá honum komi frumvarp um að banna aftur bjór og jafnvel að takmarka aftur vínveitingar á matsölustöðum — í mínu ungdæmi voru alls konar takmarkanir á því — og jafnvel að þingið stuðli að því að Áfengisverslun ríkisins, eða Vínbúðin, selji helst bara eina tegund af rauðvíni og það frekar vonda.