149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[20:22]
Horfa

Sigríður María Egilsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég ætla að vera frekar stuttorð og eru þetta helst viðbrögð við þeim ræðum sem ég hef heyrt hingað til. Mönnum hefur í kvöld verið tíðrætt um að auknu aðgengi að áfengi fylgi aukin neysla og við því hef ég tvennt að segja. Í fyrsta lagi eru verslanir ÁTVR orðnar 51 talsins. Fjöldinn hefur fjórfaldast á 30 árum og til samanburðar rekur lágvöruverslunin Bónus einungis 32 verslanir. Það er því orðið auðveldara að nálgast áfengi í verslunum ÁTVR en það er að komast í Bónus.

Í öðru lagi, ef menn óttast það að í kjölfar frumvarpsins spretti upp sérvöruverslanir með vín á hverju einasta horni er ríkinu sjálfu í lófa lagið að loka eigin sérvöruverslunum, sem einkareknu verslununum nemur. Þá hefur áhyggjum af ungu fólki verið varpað fram, af aukinni neyslu ungs fólks í kjölfar þessa frumvarps. Ég ítreka að neysla ungs fólks á áfengi hefur snarminnkað á síðustu árum og það er vegna aukinnar fræðslu meðal þessa hóps og forvarnavinnu.

Það er ekkert sem bendir til þess að starfsmenn einkarekinna verslana séu lélegri í því að skoða skilríki en starfsmenn ríkisins og því ekkert sem bendir til þess að aðgengi ungs fólks að áfengi verði auðveldara í raun. Að auki eru í raun meiri líkur á því að eftirlit með einkaaðilum verði harðara, þeir eigi sjálfir meira undir og því verði eftirlitshlutverki þeirra tekið af alvöru.

Aðgengi að áfengi hefur aukist um 250%, hvort sem það er með fleiri verslunum ÁTVR eða fleiri vínveitingaleyfum. Ef andstæðingar frumvarpsins eru virkilega svona andvígir auknu aðgengi þá verð ég að spyrja: Er það á stefnuskrá hv. þingmanna að loka einhverjum af þeim fjölda útibúa sem ÁTVR hefur opnað á síðustu árum? Er jákvætt að það er engin áfengisverslun á Flateyri, Bolungarvík eða Súðavík? Myndu þeir andmæla jafn harkalega ef til stæði að opna ÁTVR þar? Hvar voru slík andmæli þegar hinar búðirnar voru opnaðar?

Ég finn einfaldlega lykt af hræsni og tel að raunverulegur ásetningur andstæðinga frumvarpsins sé ekki að vernda lýðheilsu, ellegar hefðu þeir mótmælt opnun ÁTVR á hinum ýmsu stöðum á landinu eða beitt sér fyrir lokun þeirra. Raunverulegur ásetningur virðist vera sá að ríkið sjái einfaldlega um reksturinn, bara af því bara. Þetta snýst miklu frekar um prinsipp en lýðheilsu.

Virðulegur forseti. Forræðishyggjan eldist aldrei vel.

Ég leyfi mér að hafa það eftir tveimur fyrrverandi þingmönnun sem þeir sögðu þegar upp kom umræða um það hvort heimila ætti bjór á Íslandi, en vikið hefur verið að því í máli þingmanna fyrr í kvöld, með leyfi forseta:

„Ég er ákaflega tortrygginn á að leyfa bjór hér á landi. Ég held að það myndi breyta drykkjusiðum til verri vegar, og m.a. leiða til þess að menn drykkju við vinnu.“

Svo sagði Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi þingmaður og forseti.

Svavar Gestsson sagði, með leyfi forseta: „… bið menn enn að skoða hug sinn áður en þeir taka á sig þá ábyrgð sem fylgir því að hella áfengu öli yfir íslensku þjóðina.“

En íslenska þjóðin baðaði sig ekki upp úr bjórnum og hún byrjaði ekki að drekka í vinnunni, a.m.k. ekki þeir sem voru ekki byrjaðir að því þá þegar — og já, þetta er vísun í Klaustursmálið.

Því var haldið fram af hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni áðan að sala á bjór hefði snaraukist þegar bjórinn var leyfður. Það vill reyndar svo skemmtilega til að sala á bjórlíki snarminnkaði á sama tímapunkti.

Í þessu frumvarpi felst töluverð réttarbót. Samkvæmt frumvarpinu verða framlög í lýðheilsusjóð fimmfölduð, fimmfalt framlag til ríkisins til að efla fræðslu, úrræði sem hefur sýnt sig að virkar þrátt fyrir aukið aðgengi að áfengi. En fræðslan gengur ekki út á að hafa vit fyrir fólki. Hún gengur út á að fólk geti haft vit fyrir sig sjálfu sér. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Forræðishyggjan eldist ekki vel.