149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[20:31]
Horfa

Sigríður María Egilsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður, eins og ég sagði í ræðu minni tel ég það einfaldlega vera prinsippmál að ríkið sé ekki með einkaleyfi á því að selja áfengi. Ríkið getur hins vegar lokað sínum verslunum ef það telur að aðgengi að áfengi aukist og einkareknar áfengisverslanir poppi upp eins og gorkúlur í kjölfar frumvarpsins.

Það er líka rétt að benda á að ríkið hefur reynt að mæta eftirspurn. Þegar versluninni í Spönginni var lokað varð allt brjálað. Verslunin var síðan opnuð aftur tveimur vikum síðar. Ríkið hefur ekki beitt sér fyrir því að loka þessum verslunum einfaldlega vegna þess að það vill það ekki. Ég tel að einkaaðilar eigi alveg jafn mikið erindi inn á þennan tiltekna markað. Ríkið getur þó reynt að stemma stigu við fjölda einkarekinna verslana ef það vill, með því að loka sínum eigin.