149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[21:08]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni málefnalega ræðu hér áðan. Ég held að það sé mikilvægt að við tökum umræðuna um þetta á þessum forsendum.

Ég ætla að leyfa mér að segja það, virðulegur forseti, að þegar við tölum um frelsi og einstaklingsfrelsi þá er aðgengi að áfengi það gott hér á Íslandi að ég hef engar sérstakar áhyggjur af frelsi einstaklingsins. Hann hefur fullt frelsi til að fara og kaupa sér áfengi mjög víða, einmitt vegna þess að ríkið hefur opnað verslanir með áfengi úti um allt land og víða mjög margar.

Aftur á móti viðurkenni ég að það pirrar mig alveg óendanlega mikið að við tökum einhverja eina vöru eins og áfengi og segjum að það megi ekki selja hana í flöskuformi vegna þess að ríkið eigi að gera það, á meðan við erum með stórhættuleg efni eins og tóbak, sprengiefni, byssur, alls konar lyf og eitthvað fleira og leyfum einkaaðilum að selja það, innan mjög ákveðins regluverks. Þá spyr ég hv. þingmann: Er ekki svolítið tvískinnungur í því að við segjum að þegar selt er vín í flösku þá verði það að vera í útibúum sem eru rekin af ríkinu, en ef maður kaupir vín í glasi þá er ekkert mál, þá getur fullt af einkaaðilum sótt um að selja það og mjög rúmar reglur hvað það varðar?

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi kynnt sér ágætisfrumvarp, mitt og fleiri, mál nr. 480, sem lýtur líka að breytingu á þessum ágætu lögum en snýr að staðsetningu áfengisverslana. Þar legg ég og nokkrir hv. þingmenn áherslu á skipulagsvald sveitarfélaganna og að þau hafi vald til að ákveða staðsetningu verslana ÁTVR. Ef þetta frumvarp nær ekki í gegn, og ég ætla að leyfa mér að efast um það í ljósi þess hvernig umræðan hefur yfirleitt verið um þetta, er þá ekki ástæða til að við förum að ræða(Forseti hringir.) skipulagsvald sveitarfélaganna í auknum mæli þegar kemur að ákvörðunum um staðsetningu útsölustaða fyrir áfengi?