149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[21:30]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að segja eins og hér heyrðist úti í sal: Þessi vísa er aldrei of oft kveðin. Ég ætla að lýsa mig gjörsamlega ósammála hv. þingmanni sem talaði hér. Mig langar að svara þessu: Hvað veit hv. þingmaður um hvernig þetta er hjá öðrum þjóðum? Hvað veit hv. þingmaður t.d. um drykkjumenningu unglinga í Danmörku? Og að nota það orð að þetta sé einhver menning eins og til að lyfta þessu upp á hærra plan.

Ég veit ekki betur en að unglingadrykkja í Danmörku sé ekki á góðu menningarstigi. Það er kannski vegna þess að aðgengi að áfengi er mjög gott þar þó svo að dregið sé fyrir hillurnar á sunnudögum. Það er þeirra svar. Það er vitað mál að aukið aðgengi hefur aukið drykkju. Þess vegna hefur áfengisneysla aukist síðastliðin ár. Ég vil meina að við séum ekki að fara með staðlausa stafi. Við getum snúið þessu við og sagt til að hlusta á hv. markaðsþingmann: Hvað gerist ef við hleypum þessu á skrið? Hvað verður þá um Áfengisverslun ríkisins? Hvar verður eftirlitið? Hvar ætlum við að stoppa?