149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[21:32]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. ÁTVR er mér mjög kært. Þetta er mín uppáhaldsverslun og ég vil nefna að ég á heiðursskjal, heiðursfélagi nr. 1, sem vinur ÁTVR. Ég er í sjálfu sér ekkert heitur gagnvart því að það verði einhvern veginn að breyta þessu. Aðgengið er ágætt. En þessi umræða fer í taugarnar á mér, að það fari allt á hliðina. Það hefur aldrei neitt farið á hliðina. Það fór ekkert á hliðina þegar bjórinn kom. (Gripið fram í: Jú.) Nei, ástand þessarar þjóðar er miklu betra eftir að bjórinn kom en var áður, ég fullyrði það. Þegar ég horfi á mína kynslóð, þegar hún var að drekka áður en bjórinn kom, og síðan syni mína þá er mikill munur þar á, ekki mér í hag. Þetta er bara svona.

Það var spurt hvernig ég viti hvernig ástandið er annars staðar. Ég er nú víðförull maður og hvert sem ég kem kynni ég mér sérstaklega áfengisnotkun, hvernig menn brúka áfengi. Ég er sérstakur áhugamaður um það og ég veit alveg hvernig það er. Ég fullyrði að ástandið á ungmennum er víðast hvar betra — það getur hugsanlega verið einhver undantekning — og ég tala nú ekki um þá sem eldri eru. Það getur vel verið að þeir drekki oftar rauðvín með steikinni en við en að öðru leyti held ég að þeir séu bara í betra ástandi. Þetta vita allir sem hafa eitthvað farið út fyrir landsteinana. Það kann að vera að Miðflokksmenn hafi aldrei farið neitt.

Ég er bara að segja: Verum ekki svona hrædd. Áhyggjur mínar af þessu frumvarpi eru þær að það er fullyrt að í auglýsingu verði að segja að þessi vara sé skaðleg. Ég vil mótmæla því. Hún er ekki skaðleg, ég held hún sé holl fyrir suma, þó að sumir ráði ekki við hana. Ég veit það.