149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[21:36]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum góða ræðu. Ég ætla að vera með vangaveltur frekar en kannski beinar spurningar. Ég spurði áðan í ræðu minni hvers vegna tillöguflytjendur gera ekki tilkall til þess að þeir sem eiga að fá frelsi til að selja þessa vöru fái líka leyfi til að borga fyrir þann skaða sem af getur hlotist og þann aukakostnað sem samfélagið verður fyrir.

Fjallað er um einkavæðingu kerfa, m.a. hvað varðar áfengi, í grein eftir Robin Room, sem er einn af höfundum bókarinnar Áfengi er engin venjuleg neysluvara, í tímaritinu Contemporary Drug Problems. Hann segir þar að áfengiseinokun sé skilvirk leið til að draga úr áfengisneyslu og skaðsemi hennar. Eins og ég hef sagt áður þá er alveg sama hvar borið er niður, þetta virðist vera niðurstaðan. Þess vegna verður maður að spyrja: Hvert er frelsið, þegar upp er staðið, ef það er í formi þess að íþyngjandi sjúkdómar, íþyngjandi álag á allt okkar innviðakerfi verður niðurstaðan?

Þetta er eitt af því sem mér finnst tillöguhafar alltaf skauta fram hjá. Svo er það annað sem mér finnst vera að afhjúpast hér, þ.e. að ÁTVR er ekki rekin með það að markmiði að hagnast. Í sjálfu sér er hún ekki rekin með slíku markmiði. Hún skilar hagnaði. Við nýtum hann m.a. til þess að bregðast við þeim samfélagserfiðleikum sem fylgja neyslu. Það er ekki aðalmál ÁTVR að skila hagnaði. Er þingmaðurinn sammála mér um að hvatinn sé aftengdur í þessu samhengi ef við ætlum að fara með áfengi út í almenna matvöruverslun, þ.e. að það hljóti að vera markmið verslunarinnar að græða sem allra mest?