149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[21:42]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir orð hv. þingmanns um að dýrmætur tími allsherjar- og menntamálanefndar færi í þetta mál. Ég tel best að það nái ekki einu sinni þangað, verandi nefndarmaður í þeirri ágætu hv. nefnd. Það er rétt að ekki er um venjulega neysluvöru að ræða og við eigum ekki að umgangast hana sem slíka. Við höfum mátt setja ýmsar girðingar við það að hafa vínbúðir, til að mynda þurfum við ítrekað að segja fólki að ekki megi drekka og keyra eftir það. Hvert sem við lítum eru afleiðingar neyslu augljósar og við þurfum að bregðast við alveg endalaust. Það er líka dálítið hjákátlegt að ætla að hunsa öll varnaðarorð sem hafa verið sögð bæði innanlands og utan. Ég er sannfærð um að það að vera með söluna eins og hún er í dag, bundna við ákveðnar verslanir undir ákveðnu eftirliti, hvað varðar gæði og verð, að það fari ekki upp úr öllu valdi, sendir líka ákveðin skilaboð. Það þýðir að við erum að umgangast þessa vöru, vil ég leyfa mér að segja, af virðingu. Við gerum okkur grein fyrir afleiðingunum ef hún yrði sett í frjálsa smásölu eins og hér er boðað.