149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[21:58]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni ræðuna. Hv. þingmaður fór yfir málið út frá ýmsum sjónarhornum. En það sem ég saknaði úr ræðu hv. þingmanns voru þau áhrif sem hv. þingmaður telur að samþykkt frumvarpsins myndi hafa sérstaklega í hinum dreifðu byggðum úti á landi. Eins og kom fram í máli bæði hv. þm. Önnu Kolbrúnar Árnadóttur og Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur þá gæti jafnvel farið svo, með því að fara þá leið sem er ætlað að fara í frumvarpinu, að úti á landi myndi staðan versna í — nú ætla ég að koma með nýyrði — áfengismenningarlegu tilliti. Framboð verði snautlegra og þar með geta væntanlega möguleikar manna á að iðka menningarlega fjölbreytni í áfengisneyslu orðið minni en nú er.

Mig langar að heyra hv. þingmann fara yfir hvort hann telji að áhrif frumvarpsins kynnu að verða önnur úti á landi, og þá á fámennari stöðum, en í þéttbýlinu.