149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

110. mál
[22:02]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú ætla ég ekki að verða sá maður sem fer að etja saman landsbyggð og höfuðborgarsvæði. En einmitt í þessu tilliti vekur óneitanlega athygli að allir flutningsmenn frumvarpsins eru af höfuðborgarsvæðinu. Það vekur mann alla vega til umhugsunar.

Þá kemur að hinu atriðinu sem ég hef svolítið velt fyrir mér og langar að ræða við hv. þingmann. Það er hvort þingmaðurinn sjái einhverja leið fyrir okkur sem löggjafarsamkundu til að komast út úr þessu máli, koma því frá, hætta að eyða tíma í þetta. Það er engin eftirspurn eftir þessu úti í samfélaginu nema hjá mjög þröngum hópi. Þingmaðurinn og margir aðrir þingmenn bentu á að hún væri kannski fyrst og fremst hjá þeim sem hygðust selja áfengi eða þeim sem væru talsmenn þeirra sem hygðust selja áfengi.

Ég velti fyrir mér: Er leiðin til að höggva á hnútinn, ef þess þá þarf, til að eyða ekki enn þá meiri tíma hér í þinginu með því að koma málinu til nefndar eða eitthvað þess háttar og taka fólk alls staðar að af landinu inn í myndina, fá sendar umsagnir, o.s.frv., er lausnin kannski að hleypa þjóðinni bara að málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og við ættum kannski að gera oftar í öðrum málum? Væri lausnin að leyfa þjóðinni hreinlega að segja: Nei, við höfum ekki áhuga á þessu?