149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

forsendur fjármálaáætlunar.

[10:42]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Samfylkingin vill einmitt lækka skatta á lágar tekjur og meðaltekjur og er sammála Vinstri grænum um að þeir sem eru mjög vel aflögufærir geti greitt t.d. auðlegðarskatt. Við viljum hins vegar ekki lækka skatta með þeim hætti að hótelstjórinn fái sömu krónutölu og hótelþernan.

Er hæstv. ráðherra með öðrum orðum að segja að forsendur fjármálaáætlunar frá því í fyrra hafi staðist? Hann er þá örugglega einn um það.

Bæði talsmenn atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar hafa talað um að fleira skapaði góð kjör en launahækkanir, og þar komi ríkisvaldið inn í með því að skapa fólki sæmilega góðan aðbúnað og öryggi, sem ekki er verið að gera. Hér er búið að hola velferðarkerfið að innan, vaxtabætur eru sagnfræði, barnabætur hækkuðu lítillega en skerðast hratt.

Ég spyr aftur: Finnst ráðherra við vera komin í þá spennitreyju sem fjármálaráð varaði við? Telur hann að hér sé stöðugleiki í landinu? Hann er þá líklega sá eini sem álítur það.