149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

[10:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Með allri virðingu, hv. þingmaður talar tóma þvælu. Samdráttur í boði Sjálfstæðisflokksins á uppgangstímum? Hvar er þessi samdráttur? Hefur þingmaðurinn skoðað rammasett útgjöld fjármálanna, frumútgjöld rammasett? Kann þingmaðurinn að lesa fjármálaáætlun og fjárlög frá ári til árs? Hvar er samdrátturinn sem verið er að tala um?

Við erum að verja stjarnfræðilegum tölum umfram það sem við vorum að gera fyrir örfáum árum í stóru málaflokkana, hvort sem eru heilbrigðismál eða félagsmál, menntamál, samgöngumál. Við erum í miðju átaki í samgöngumálum. Og hv. þingmaður segir að við höfum verið að reka stefnu samdráttar á góðæristímum. Það er alveg með ólíkindum að hlusta á þetta. Og hugmyndir um að í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga birtist, vegna jöfnunarsjóðsmálanna, eitthvert framhald á þessari stefnu? Ég veit ekki hverju maður á eiginlega svara, þetta er svo mikil þvæla.

Við ætlum einfaldlega að (Forseti hringir.) halda áfram samtali við sveitarfélögin og ná niðurstöðu sem báðir geta unað við.