149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

ávana- og fíkniefni.

711. mál
[11:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir jákvæðar undirtektir í þessu máli. Ég tek undir það sem kemur fram hjá henni, þetta er gríðarlega mikilvægt framfaraskref og vonandi er þetta fyrsta skrefið af fleirum í áttina að því að auka úrræði undir merkjum skaðaminnkunar í samfélaginu. Það er það sem við þurfum að gera.

Það er klárt að við erum hér að ryðja nýja braut og þess vegna er þetta litla frumvarp kannski ekki bara til marks um þá breytingu sem það felur í sér heldur líka táknrænt skref í áttina að því að löggjafinn taki það til sín að breyta löggjöfinni í átt til skaðaminnkunar.

Hv. þingmaður spurði sérstaklega um samráð við lögreglu og þá umræðu alla saman. Áformin um að leggja þetta mál fyrir voru fyrst sett á samráðsgáttina og þá komu einhverjar athugasemdir. En þegar frumvarpið var komið fullbúið í samráðsgáttina kom ein umsögn og hún var frá Rauða krossinum sem studdi málið. Við höfum því ekki séð í þessu formlega ferli athugasemdir. En hins vegar erum við við smíði frumvarpsins algerlega meðvituð um þá stöðu sem er þarna úti eftir samtöl við lögreglu o.s.frv. Eðli máls samkvæmt þarf lögreglan að fara varlega í því að taka beina afstöðu til mála af þessu tagi en mun auðvitað fara að lögum hér eftir sem hingað til. Þegar lögunum er breytt með þessu móti verður það líka til breytinga í starfsumhverfi lögreglu.

Svo virðist sem það tíðkist síður að beita refsivörsluaðgerðum gegn fólki með neysluskammta á sér hvort sem er, það er í raun sá veruleiki sem er þarna úti. Ef til vill þarf löggjafinn í fyllingu tímans að taka það til sérstakrar umfjöllunar, til að byggja lögin á þeirri framkvæmd sem er raunverulega til staðar.