149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

ávana- og fíkniefni.

711. mál
[11:48]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og ég hlakka til að sjá þetta í frekari umfjöllun velferðarnefndar. Það er alveg hárrétt að þetta er kannski bara sá raunveruleiki sem er uppi hjá einstaklingum með neysluskammtana. Það verður góð umræða um það.

Mig langar í seinni umferð að varpa þeirri spurningu yfir til ráðherra að nú eru þessi neyslurými, eðli málsins vegna, ætluð fólki 18 ára og eldri og fyrir því liggja ríkar ástæður en samt er það staðreynd, því miður, að aukning í vímuefnanotkun er líka mikil meðal ungmenna yngri en 18 ára: Eru heilbrigðisyfirvöld með í skoðun ný úrræði, einhverjar nýjar leiðir til að aðstoða þau ungmenni, hvort sem það er beinlínis í skaðaminnkun eingöngu eða einhvers konar samstarf, einhverjar nýjungar? Við verðum því miður að horfast í augu við að það sem hingað til hefur verið gert hefur ekki skilað tilætluðum árangri, ekki ef maður lítur á tölur um aukningu.