149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

ávana- og fíkniefni.

711. mál
[12:30]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér í dag þýðingarmikið málefni og ég tek undir orð þeirra sem segja að það sé gleðilegur viðburður að við fjöllum um þetta mál og nálgumst þetta viðfangsefni með jafn opnum huga og þetta frumvarp ber með sér. Þetta er þýðingarmikið málefni, innihaldsmikið og efnisdrjúgt, kannski ekki óumdeilt og kann að orka á einhverja sem þungbært siðferðilegt viðfangsefni. Hér kallast nefnilega á ýmis rótgróin sjónarmið, viðtekin siðgæðisviðmið, samfélagsleg þjónusta, mannúð, lög og reglur og fagmennska svo eitthvað sé nefnt.

Ég held, virðulegur forseti, að flestir vildu umfram allt nýta alla sína orku til að sporna við og vinna að forvörnum og fyrirbyggjandi verkefnum til að koma í veg fyrir ofneyslu vímuefna og fíkniefna af hvaða tagi sem er meðal okkar unga, efnilega og glæsilega æskufólks eða fólks á öllum aldri sem berst jafnvel fyrir lífi sínu í þessum heljargreipum, í stað þess að koma til móts við einstaklinga í þessari erfiðu stöðu í skugga mannlífsins þar sem baráttan er hörð. En við einsetjum okkur að gefa þessum hluta samferðarfólksins eins og öllu öðru fólki von um aukin lífsgæði og sjálfsvirðingu við aðstæður sem hafa orðið hlutskipti hans. Þetta er ekki stór hópur en hann þarf stuðnings við.

Allt er þetta unnið eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu samkvæmt markmiðum Sameinuðu þjóðanna og eins og hæstv. ráðherra kom svo vel inn á í sinni yfirferð er búið að skoða þetta af heilbrigðisyfirvöldum víða um heim og það ber allt að sama brunni.

Frumvarpið gengur út á að embætti landlæknis verði heimilað í samráði við sveitarfélög að opna og starfrækja svokölluð neyslurými þar sem einstaklingum 18 ára og eldri er heimilt að neyta ávana- og fíkniefna við eins tryggar aðstæður og mögulegt er og undir eftirliti af hálfu heilbrigðisstarfsmanna þar sem menn og konur gæta fyllsta hreinlætis og öryggis eins og hægt er til að leitast við að fyrirbyggja sýkingar.

Neyslurými styðjast við hugmyndafræði skaðaminnkunar en í henni felst að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum notkunar ávana- og fíkniefna, hvort sem þau eru lögleg eða ólögleg, án þess endilega að markmiðið sé beinlínis að draga úr notkun ávana- og fíkniefna við þessar aðstæður þó að það sé auðvitað alltaf undirliggjandi þáttur sem við höfum öll einsett okkur að vinna að. Eins og fram kemur í frumvarpinu gagnast skaðaminnkun ekki bara fólki sem notar efnin því líkt og hæstv. ráðherra kom inn á eru fjölskyldurnar einnig undir, nærsamfélagið og raunar allt samfélagið. Grundvallarþáttur þessarar hugmyndafræði er líka sá að í þessum úrræðum felst viðurkenning á því að fjöldi fólks á Íslandi og víðar um heiminn heldur áfram að nota ávana- og fíkniefni þrátt fyrir alla viðleitni í þágu forvarna, fræðslu og fyrirbyggjandi starfs til að koma í veg fyrir að hafin sé neysla á vímuefnum eða áframhaldandi notkun efnanna.

Við þekkjum öll umræðu sem kviknar með reglulegu millibili um umgengni á almenningssalernum og jafnvel á opnum leiksvæðum barna, notaðar nálar og ummerki sem valdið geta hættu. Þetta vekur með skólastjórnendum og foreldrum auðvitað ugg. Einn höfuðtilgangur þessa frumvarps er einmitt sá að draga úr neyslu ávana- og fíkniefna utan dyra og á almannafæri og þar með draga úr því að notaður sprautubúnaður finnist á víðavangi. Því er augljóst að það er þörf á valkosti eins og neyslurými fyrir einstaklinga sem neyta þessara efna í æð til að lágmarka áhættu og skaða af áframhaldandi notkun. Einhverjum kann að þykja að í þessu skrefi felist ósigur eða uppgjöf, baráttan sé að tapast. Ég lít ekki þannig á, þvert á móti er í þessu fólginn sigur að ákveðnu leyti, sigur hugans. Við erum að horfast í augu við staðreyndir, þessi niðurbrjótandi öfl, og með því er betur hægt að takast á við þennan vanda.

Umræða um valkosti af þessu tagi hefur verið nokkur hér á landi undanfarin misseri. Ástæða er til að nefna hið ágæta frumkvæði, Frú Ragnheiði, eins og fram hefur komið hér fyrr. Það er skaðaminnkandi úrræði sem starfrækt er á höfuðborgarsvæðinu og hefur verið gert frá því á árinu 2009. Svipað úrræði er einnig í boði á Akureyri, það úrræði heitir Ungfrú Ragnheiður, og það er Rauði krossinn sem hefur haft frumkvæði að þessu og borið uppi þetta starf að hluta til eða í verulegum mæli í sjálfboðavinnu fagfólks. Markmiðið er að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu, heimilislausra og þeirra sem nota vímuefni í æð.

Hér fetum við okkur á dálítið hálum ís hvað varðar lagaumhverfið en mér finnst mikil reisn yfir því hvernig við þó leitumst við að nálgast þetta málefni. Úrræði Frú Ragnheiðar er hreyfanleg þjónusta, það er sérbúin bifreið sem fer um höfuðborgarsvæðið flest kvöld vikunnar. Það er að vísu aðeins í boði að kvöldlagi og æskilegt væri, og ég held að það sé hugmyndin, að þetta verði úrræði sem verði a.m.k. í boði allan daginn en þyrfti að vera sólarhringsþjónusta þegar fram líða stundir. Það á eftir að koma nánar í ljós. Það er, eins og fram hefur komið, ýmisleg þjónusta og liðveisla sem fólki er veitt í þessu umhverfi og það er af hinu góða. Það er heilsufarsráðgjöf og það geta verið sáraumbúðaskipti, almenn heilsufarsráðgjöf og það sem er mikilvægt er, nálaskiptaþjónusta.

Þessi starfsemi hefur sannað gildi sitt, fest sig í sessi en aðstandendur þjónustunnar telja af sinni reynslu að styrkja þurfi umgjörðina og gera fagfólki enn betur kleift að bregðast við og laga sig að þeim aðstæðum sem ríkja, t.d. þegar einstaklingur tekur of stóran skammt. Víðast í neyslurýmum erlendis er heilbrigðisstarfsmönnum sem þar vinna gert kleift að nota sérstakt lyf sem dregur úr áhrifum ofskömmtunar. Ég þekki ekki gjörla til þess hér en það hefur verið takmörkunum háð. Það er gott til þess að vita að þetta reynslufólk Frú Ragnheiðar hefur tekið þátt í að undirbúa þetta mál sem við erum að fjalla um í dag.

Virðulegur forseti. Fyrirmyndina að þessari þjónustu er að finna víða í kringum okkur. Það má nefna Danmörku sem er nærri okkur, þar hófst viðlíka starfsemi árið 2012 og í Noregi heldur fyrr, árið 2004, en fyrsta neyslurýmið var tekið í notkun árið 1981 í Hollandi. Nú eru þessi rými um veröldina víða og líklega um 90 talsins eftir því sem fram kemur í greinargerðinni.

Virðulegur forseti. Það er ástæða til í dag að þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja fyrir Alþingi þetta frumvarp og gefa þingheimi kost á að fjalla um þetta áleitna og samfélagslega málefni sem lætur engan ósnortinn. Mér finnst persónulega að hér sé fetuð braut skynsemi og raunsæi, að við horfum á staðreyndir lífsins, ef svo má segja, með berum augum, setjum ekki kíkinn fyrir blinda augað eins og okkur hefur stundum verið tamt. Mér finnst þau viðhorf endurspeglast í þessu frumvarpi, að líta beri á þennan veruleika eins og hann er en ekki kannski eins og við vildum gjarnan að hann væri.