149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

loftslagsmál.

[15:19]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Ég þakka málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir innlegg þeirra og hv. þingmanni fyrir að setja málið á dagskrá. Mig langar til að koma með mín tvö sent hérna og nálgast sérstaklega tvær fyrstu spurningarnar sem málshefjandi leggur fram. Það er í fyrsta lagi: Hvaða árangur hefur náðst hingað til ? Í öðru lagi: Hvers má vænta á árinu 2019?

Mig langar að þrengja þetta svolítið niður og segja: Frá mínum bæjardyrum séð er eitt af því sem ég tel að megi vænta og sé mikilvægt að atvinnulífið komi inn í þessa umræðu og komi inn með aðgerðir af fullum þunga. Ég nefni þar sem dæmi umhverfishóp Viðskiptaráðs sem mér skilst að sé nýtekinn til starfa, það er fjölmennasti málefnahópur ráðsins til þessa. Og þegar talað er um aðkomu atvinnulífsins og atvinnuveganna þá er náttúrlega ekki hægt annað en að nefna sérstaklega sjávarútveginn sem hefur náð frábærum árangri á undanförnum árum og áratugum varðandi losun og orkusparnað. Það er auðvitað margt gott í gangi í landbúnaðinum líka.

Þegar kemur að því með hvaða hætti er hægt að virkja einkaaðila þá langar mig að segja tvennt: Annars vegar loftslagsráðið sem stjórnvöld stofnuðu til um mitt síðasta ár er vel skipað, margskipað en ansi þröngt skipað. Þar vantar að mínu mati tilfinnanlega fleiri fulltrúa atvinnulífsins. Þar er vissulega fulltrúi Samtaka atvinnulífsins en ég myndi vilja sjá fleiri fulltrúa atvinnulífsins þar, mögulega á kostnað akademíunnar eða mikilla sérfræðinga sem þar eru ef ekki má fjölga í hópnum.

Að lokum langar mig að koma inn á það hvað hægt er að gera í samvinnu atvinnulífs og stjórnvalda eða bara með aðkomu atvinnulífsins. Tökum íslenska grænmetið okkar. Því er pakkað inn í plast til að það sé auðkennt, svo menn átti sig á því að þeir séu að kaupa íslenskt grænmeti en ekki þetta erlenda. Við vitum að það hefur komið fram í skýrslum að kolefnisspor innlenda grænmetisins er mun minna en þess innflutta. Við vitum það líka að kolefnisspor af plastpökkun er þrefalt meira (Forseti hringir.) en af pappaskjóðum. Ég trúi ekki öðru en að þegar okkar besta fólk í stjórnsýslunni og atvinnulífinu leggst saman á árarnar finni það leið til þess að tryggja að við neytendur, (Forseti hringir.) sem viljum gjarnan kaupa dýrara grænmeti, hið íslenska, af því að við teljum það betra, getum þekkt það í hillum verslana án þess að það þurfi að pakka hverju einasta stykki í vakúmpakkningu. (Forseti hringir.) Það hlýtur að vera til betri leið.