149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

loftslagsmál.

[15:26]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ríkisstjórnin hefur lagt fram aðgerðaáætlun í loftslagsmálum til ársins 2030. Þessi aðgerðaáætlun er ekki bara ónæg til að bregðast við þeim vandamálum sem blasa við, heldur er á henni grundvallargalli. Hún ræðst að einkennunum í stað þess að ráðast að rót vandans. Hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skrifað um stanslausa og ósjálfbæra neyslu sem kjarna vandans og að einstaklingar og fyrirtæki um allan heim þurfi að taka til í sínum ranni. Þetta er gott og vel. En er hægt að ætlast til þess að hegðun einstaklinga og fyrirtækja verði hreinlega í andstöðu við þá hvata og þá hugmyndafræði sem liggja að baki og drífa áfram núverandi efnahagskerfi, þ.e. linnulaus vöxtur hagkerfisins út í hið óendanlega á kostnað alls annars? Linnulaus hagvöxtur krefst nefnilega linnulausrar neyslu og hagnaðar í stórfyrirtæki sem forgangsraðar því framar en lífvænleika plánetunnar.

Guðni Elísson var mjög afdráttarlaus í Silfrinu um helgina í lýsingum sínum á þeim hörmungum sem við stöndum frammi fyrir ef við grípum ekki til róttækra aðgerða strax. Sagði hann m.a., með leyfi forseta:

„Við þurfum í rauninni að endurmóta hagkerfið, alla innviði og það er mjög flókið. Og við þurfum að gera það mjög hratt.“

Undanfarnar vikur hafa staðið yfir mótmæli ungmenna á Austurvelli þar sem unga kynslóðin krefst þess að valdhafar grípi til aðgerða. Þar hef ég séð skilti á borð við: „Breytum kerfinu, ekki loftslaginu.“

Okkur ber að hlusta á raddir þessara barna og ungmenna því að við erum nefnilega stela framtíð þeirra og komandi kynslóða. Réttindi komandi kynslóða eru stærsta mannréttindamál okkar tíma.

Markmið efnahagsstefnu 21. aldarinnar þarf að vera að mæta þörfum allra innan marka nýtanlegra auðlinda með hliðsjón af lífvænleika plánetunnar. Við þurfum að útrýma fátækt og tryggja vistvæna og sjálfbæra efnahagsstarfsemi til langrar framtíðar. (Forseti hringir.)

Forseti. Við þurfum nýjar áherslur, nýja sýn, nýja hugmyndafræði. Þetta er flókið verkefni, já, en við þurfum bókstaflega að bjarga heiminum. Það er ekkert flókið. Við verðum að taka til róttækra aðgerða, við verðum að breyta kerfinu okkar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)