149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

loftslagsmál.

[15:34]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Forseti. Eins og komið hefur svo skýrt fram í umræðunni í dag er þetta málefni sem snertir okkur öll og við verðum að axla ábyrgð. Og því miður, þrátt fyrir að vera svo heppin að vera með græna raforkuframleiðslu, erum við Íslendingar ekki til fyrirmyndar þegar kemur að loftslagsmálum heldur losum við að meðaltali nær tvöfalt meira en íbúar ESB af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið á ári hverju.

Staðreyndin er sú að við þurfum að stíga mun þyngri skref í viðbrögðum okkar við loftslagsbreytingum. Við þurfum að minnka neyslu og þar þarf ríkið að ganga á undan með góðu fordæmi. Við þurfum að gera meira og við þurfum að gera það fyrr. Af hverju ekki t.d. að banna nýskráningu bensín- og dísilbíla fyrr en árið 2030, t.d. 2025, eins og Norðmenn stefna að? Höfum þá í huga þá staðreynd sem fram kom í þættinum Hvað höfum við gert á RÚV, að bílarnir okkar losa u.þ.b. milljón tonn á ári af gróðurhúsalofttegundum sem er svipað og stóriðjan losar? Af hverju er ekki búið að setja kolefnisgjald á aðra losun líka, eins og t.d. urðun?

Forseti. Við þekkjum staðreyndirnar. Við þekkjum stöðuna. Loftslagsvísindamenn, bæði íslenskir og erlendir, eru sammála um það og því kemur á óvart að enn í dag tali aðilar gegn hörðum aðgerðum.

Mig langar því að varpa fram spurningu í umræðunni: Hvaða tölur eru þessir aðilar tilbúnir að leggja fram sem sýna aðra leið til þess að standast beinar skuldbindingar Íslands í Parísarsamkomulaginu, svo við tölum bara um harða peninga? Eða þegar kemur að jörðinni? Hvað erum við tilbúin að leggja af mörkum til að bjarga jörðinni?

Herra forseti. Gera þarf breytingar á skattkerfinu, samgöngu- og húsnæðismálum, matvælaframleiðslu og auðlindanýtingu með sjálfbærni að leiðarljósi. Ríkið ætti til að mynda að vera á fullu í að fjárfesta í endurnýjanlegri orku og vera með hvata í því samhengi. Við þurfum að virkja hugvit og vera fyrirmyndir í baráttunni gegn hlýnun jarðar á alþjóðavettvangi. Við höfum allt til þess að svo geti orðið.