149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

loftslagsmál.

[15:38]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að hlusta á umræðuna og þann samhljóm sem kemur fram í orðum þingmanna um hversu mikilvægt er að við tökum á þeirri vá sem að okkur steðjar í loftslagsmálum og sýnum raunverulegan metnað. Eins og allar aðrar þjóðir heims eigum við gríðarlega mikla hagsmuni undir.

Það sem mér verður hins vegar alltaf meira og meira hugsað til í þessu er að þrátt fyrir öll fögur orð, þrátt fyrir að við séum hætt að rífast um í sjálfu sér hlýnun jarðar, alla vega í meginstraumi umræðunnar, þá eru umhverfismálin alltaf víkjandi í umræðunni. Þau eru aldrei í fyrsta sæti. Þegar við ræðum kolefnisgjöld til að ýta undir orkuskipti er ráðist á þau í þessum sal af því að hér sé um að ræða einhvers konar landsbyggðarskatt. Samt er verðlagsuppfærsla á eldsneytisgjöldum oft hærri en hækkun okkar á kolefnisgjöldunum. Okkur er sjaldnast alvara með þeim orðum sem við látum falla um mikilvægi umhverfis- og loftslagsmála þegar kemur að efndunum, þegar kemur að því að grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegt er að grípa til.

Það verður ekkert undan því vikist; ef við ætlum að sýna raunverulegan metnað í umhverfismálum þá þurfum við að breyta neyslumynstri okkar. Við þurfum að skattleggja mengun, líka þegar það snertir okkur persónulega sem neytendur. Við þurfum að umbreyta skattkerfinu okkar. Kannski ættum við að umbreyta virðisaukaskattskerfinu okkar í kolefnisskatt að stórum hluta á alla neyslu.

Það má líka velta fyrir sér umræðunni eins og í kringum ferðaþjónustuna. Við höfum lagt höfuðáherslu á gríðarlega uppbyggingu ferðaþjónustu og maður veltir fyrir sér langtímasjálfbærni þeirrar atvinnugreinar þegar við horfum á það kolefnisspor sem hún veldur. Hvað verður þegar verður á alþjóðavísu farið að taka á losun í flugi? Hvað mun það þýða fyrir ferðaþjónustuna hér heima fyrir? Hvað mun það þýða fyrir ferðavenjur okkar sjálfra en ekki síður þeirra sem hingað koma?

Lykillinn að þessu er, og ég vona að þessi umræða verði okkur hér í þessum sal hvatning til þess, (Forseti hringir.) að við verðum að gera umhverfisumræðuna leiðandi, setja hana í fyrsta sæti og hætta að hafa hana víkjandi eins og hún hefur alltaf verið.