149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

ferðaþjónustan og hækkun lægstu launa.

[15:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Já, ég tel að tillaga okkar gangi einmitt út á að að lækka mjög verulega og mest skattbyrðina hjá þeim sem eru neðst. (Gripið fram í.) Lausnin er reyndar algerlega sérsniðin til þess að lækka skattbyrðina akkúrat fyrir þá hópa sem hv. þingmaður er að tala um. Athugasemd hans, ef ég skil hana rétt, er sú að einhver skattalækkun skuli líka skila sér upp í efri tekjurnar, t.d. upp í meðaltekjur. Ég tel að það sé ákveðin hugsunarvilla í því vegna þess að þegar allt kemur til alls erum við að reyna að auka ráðstöfunartekjur fólks og þegar stjórnvöld lækka skatta á þá hópa hlýtur að draga úr þörfinni fyrir launahækkanir fyrir þá hina sömu hópa. (Gripið fram í: Nákvæmlega.) Ég held að það sé mjög mikilvægt við þær aðstæður sem eru uppi núna vegna þess að svigrúmið til launahækkana er minna en það hefur verið í langan tíma. Þess vegna ætti þetta að vera kærkomin tillaga til að draga úr þörfinni fyrir miklar launahækkanir fyrir þá hópa sem hér um ræðir, (Forseti hringir.) þ.e. meðaltekjufólkið og þá sem eru þar í kring. En bara til að rifja það upp hafa kröfurnar undanfarin ár frá þeim hópum legið á bilinu 30–50% launahækkanir. (Gripið fram í.)