149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Þegar ég ræði um að þessi fjármálaáætlun sé ógagnsæ og erfitt sé að átta sig á hvað í raun það er sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að gera vil ég nefna dæmi. Á blaðsíðu 14 þar sem fjallað er um fjárfestingar er talað um að auka megi fjárfestingar, finna megi leiðir til þess og svo stendur, með leyfi forseta:

„Skapa má aukið svigrúm til fjárfestinga í innviðum á komandi árum með því að nýta afrakstur af eignum ríkisins. Í því skyni gæti t.d. komið til skoðunar að nýta söluandvirði á eignarhlutum ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum, að skapa tekjur af uppbyggingu og þróun á landsvæðum í eigu ríkisins og með því að minnka eignarhluti ríkisins í opinberum fyrirtækjum eða breyta fjármagnsskipan þeirra til að gera þeim fært að auka arðgreiðslur. Einnig má taka upp notendagjöld fyrir afnot nýrra innviða og efna til samstarfs um verkefni með einkaaðilum og fagfjárfestum.“

Ég vil spyrja: Áttar forseti sig á því hvað ríkisstjórnin ætlar í rauninni að gera? Ætlar hún að selja einkahlut í bönkum? Ætlar hún að selja t.d. hlut í Landsvirkjun eða öðrum félögum í eigu ríkisins? Ætlar hún kannski að selja flugstöðina? Ætlar hún að setja á vegaskatta? Ég er engu nær eftir þessa málsgrein hvað eigi að gera varðandi fjárfestingar.

Ég treysti á, af því að hæstv. samgönguráðherra situr í salnum, að við getum trúað því sem stendur í kaflanum um samgöngumál en þar er hvergi t.d. minnst á vegtolla, þó að framar í áætluninni sé rætt um að hugsanlega mætti íhuga þá. Hvað er það sem ríkisstjórnin ætlar að gera, hæstv. ráðherra?