149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[16:03]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir prýðisræðu. Hv. þingmaður byrjaði ræðu sína á því að tala um að hann hefði lesið einhver hundruð blaðsíðna í úreltri fjármálaáætlun. Ég er sannfærður um að hv. þingmaður er ekki alveg sannfærður um að hún sé úrelt, eins og hann talaði um. Ég trúi því ekki að hv. þingmaður sé tilbúinn til að taka svo djúpt í árinni á þeim forsendum einum að hér skorti kostnaðarmat. Ég ætla ekki að deila við hann um það.

Við erum sammála um að því nákvæmara kostnaðarmat sem liggur fyrir þeim mun betur erum við í færum til þess í verkefni okkar til að mynda í fjárlaganefnd, undir lið sem heitir framkvæmd fjárlaga og eftirlit með framkvæmdarvaldinu, að leggja mat á ávinninginn af stöku framkvæmdum. Ég held að þetta muni batna til framtíðar. Hins vegar ef við ætlum að bæta úr áætlunargerðinni og gera betur, og ég vil hrósa hv. þingmanni fyrir að benda á það sem er til bóta í greinargerðinni, eins og sviðsmyndagreiningin og fráviksgreiningin, þá er það liður í lögum um opinber fjármál, í 62. gr., sem snýr að skýrslum ráðherra. Við erum nýbúin að fara yfir þær skýrslur með ráðuneytum og þá rákum við okkur einmitt á þennan þátt. Nú munum við í júní fara aðra umferð (Forseti hringir.) í slíkar skýrslur. Sér hv. þingmaður fyrir sér að við þurfum eitthvað (Forseti hringir.) að bæta úr lögunum til að ná betur utan um þáttinn um kostnaðarmat?