149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:39]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður hvetur okkur til að hugsa um raunveruleikann. Við skulum endilega hugsa um raunveruleikann og rifja upp þá umræðu sem við áttum fyrir ári um fjármálaáætlun þá og þau fjárlög sem voru lögð fram haustið á eftir, þar sem hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar voru með nákvæmlega sama málflutning, efuðust um forsendur sem um leið byggðu á nýjustu hagspám, töldu að þetta stæðist ekki. En hvað hefur gerst? Stóðst ekki síðasta ár bara nokkuð vel? spyr ég hv. þingmann. Við skulum velta því fyrir okkur hver er að tala í takt við raunveruleikann og hver ekki.

Hv. þingmaður ræðir hér viðbyggingu við Stjórnarráðið sem hann telur sem betur fer ekki komna mjög langt. Ég hefði áhuga á því að ræða það við hv. þingmann því hann lagði nú fram þessa þingsályktunartillögu, ef ég man rétt, sem hæstv. forsætisráðherra, kannski misminnir mig, um að það skyldi fagna 100 ára afmæli fullveldisins með viðbyggingu við Stjórnarráðið. Ég veit að ég á ekki að spyrja hv. þingmann en ég hefði samt áhuga á að vita hvort hann teldi ástæðu til að breyta þessum áformum í ljósi þeirrar ályktunar sem hér var samþykkt.

Hvað varðar aukningu framlaga til forsætisráðuneytisins er þar ýmislegt hægt að nefna, t.d. að fjöldi aðstoðarmanna birtist iðulega ekki í fjárlögum fyrir forsætisráðuneytið hér fyrr á tíð heldur voru viðbótaraðstoðarmenn afgreiddir í fjáraukalögum. Mér finnst það sjálfri hreinlegra og gagnsærra að hafa þessar tölur bara uppi á borði þannig að þær séu opnar til skoðunar og gagnrýni á fyrstu stigum í fjárlögum og fjármálaáætlun fremur en að við sé brugðist síðar.

Það er líka ljóst að það eru verulegir fjármunir settir í endurskoðun stjórnarskrár sem hv. þingmaður hefur auðvitað tekið þátt í. Þar gerum við ráð fyrir ákveðnum fjármunum í samráð við almenning, nýtingu rökræðukannanna sem hafa verið lagðar fram hugmyndir um í minnisblaði í þessari vinnu. Þær kosta auðvitað fjármuni, (Forseti hringir.) ég viðurkenni það algjörlega. En ég held að það sé líka mikilvægt að við rifjum upp í hvað fjármunirnir fara. (Forseti hringir.) Þeir fara ekki eingöngu í fjölgun starfsfólks, svo að ég segi það hér.