149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Auðvitað kosta verkefni forsætisráðuneytisins peninga. En það er áberandi hversu mikil aukning er á kostnaði verkefna hjá forsætisráðuneytinu án þess að það finnist nokkurs staðar lækkun annars staðar þar sem verkefni hafa verið færð til.

En af því að hæstv. forsætisráðherra nefnir aðstoðarmenn og starfsfólk hefur þessi ríkisstjórn slegið öll fyrri met í ráðningu aðstoðarmanna. Það væri áhugavert ef hæstv. ráðherra upplýsti okkur um það hversu mikið starfsmönnum forsætisráðuneytisins hefur fjölgað frá því að hæstv. ráðherra tók við störfum. Hversu margir voru þeir þegar hæstv. ráðherra tók við og hversu margir eru þeir núna?

Varðandi byggingu viðbyggingar við Stjórnarráðið snúa áhyggjur mínar fyrst og fremst að hönnun þeirrar byggingar. Ef hún er almennilega hönnuð og falleg og til þess fallin að bæta bæjarmyndina þá má hún alveg kosta sitt, þó að við förum vonandi ekki að borga einhver Reykjavíkurborgarverð í þeim efnum.