149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:51]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum fjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar í annað skiptið. Ég verð að segja að ég fagna mjög lögum um opinber fjármál. Að sjá þetta vinnulag sem við praktíserum nú er svo allt annað en var fyrir nokkrum árum. Ég fagna því mjög að við gerum áætlanir til lengri tíma. Það skiptir okkur miklu máli.

Ég vil taka undir með hæstv. forsætisráðherra þegar fjallað er um að ekki sé hægt að velja hvaða spám við fylgjum, við hljótum að þurfa fylgja þjóðhagsspá, en á sama tíma tek ég undir mikilvægi þess að horft sé til sviðsmynda sem upp geta komið svo viðbrögð séu til staðar þegar og ef eitthvað breytist.

Það er margt mjög jákvætt hægt að fara yfir í fjármálaáætluninni, til að mynda að við höldum áfram að hafa jákvæða afkomu í ríkissjóði og að skuldastaðan haldi áfram að lækka og vaxtagjöldin þar af leiðandi. Í fyrsta skiptið á þessu tímabili munum við komast undir það viðmið sem við höfum í lögum um opinber fjármál.

Það hvernig við höfum unnið á síðustu árum hefur svo búið til það svigrúm sem við höfum núna til að fjárfesta, bæði í efnahagslegum og félagslegum innviðum. Þess sést glöggt merki í fjármálaáætluninni.

Mig langar að nefna sérstaklega þær áherslur sem lagðar eru á nýsköpun, rannsóknir og tækniframfarir og hvernig við sjáum það vonandi verða til þess að fjölga stoðunum í íslensku atvinnulífi, færa okkur meira frá því að vera auðlindadrifið hagkerfi yfir í að vera hugvitsdrifið hagkerfi.

Þá langar mig að fagna lengingu fæðingarorlofs sem er risastórt jafnréttismál. Það er einn af þeim málaflokkum sem hæstv. forsætisráðherra hefur fengið á sitt borð þannig að ágætt væri að heyra frá forsætisráðherra hvers konar breytingar hún sjái fyrir sér á málefnum jafnréttis, bæði þegar kemur að jafnrétti kynjanna og ekki síður að jafnrétti alls fólks, þ.e. málefnum hinsegin fólks. Ég kem inn á hina spurninguna í næstu ræðu.