149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:53]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að nefna sérstaklega jafnréttismálin og svo auðvitað rannsóknir og nýsköpun, sem ég þreytist seint á að segja að skipta verulegu máli fyrir framtíðina. Annars vegar er verið að auka fjármuni í rekstur háskólanna og hins vegar verið að horfa til aukinna fjárfestinga í rannsóknir, þróun og nýsköpun sem heild. Ég held að gríðarlega mikilvægt sé að við gerum betur í því. Það hefur ýmislegt verið gert á undanförnum árum og það hefur þegar skilað miklum árangri, t.d. í hugverkageiranum, en hægt er að gera betur.

Hvað varðar jafnréttismálin nefndi hv. þingmaður fæðingarorlofið sem er risastórt jafnréttismál og skiptir að mínu viti líka máli fyrir samkeppnishæfni landsins, annars vegar að tryggja að ungt barnafólk geti búið hér við sambærilega stöðu og ungt barnafólk annars staðar á Norðurlöndum og hins vegar er þetta risastórt lífskjaramál. Allir vita að tíminn milli þess að fæðingarorlofi lýkur og pláss fæst á leikskóla getur verið mjög erfiður fyrir ungt barnafólk og skert lífskjör þess verulega.

Þegar við skoðum opinber gögn eins og tekjusöguna sjáum við að þetta er sá hópur sem skiptir sérstaklega máli að horfa til, ásamt fleiri hópum en þetta er einn þeirra.

Áfram um jafnréttismálin. Eitt af því sem ég nefndi í ræðu áðan er að við erum með Jafnréttissjóð sem hefur haft 100 millj. kr. á ári í fimm ár. Það framlag minnkar á áætlunartímabilinu því að samþykkt þingsins gerði ráð fyrir fimm ára tímabili. Ég veit að það hefur verið til umræðu í hv. allsherjar- og menntamálanefnd hvort ástæða væri til að horfa til lengri tíma með þann sjóð, sem hefur ekki aðeins styrkt rannsóknir heldur líka fræðslu og önnur verkefni á sviði jafnréttismála.

Síðan stendur fyrir dyrum endurskoðun jafnréttislaganna. Hafin var vinna við þá endurskoðun í tíð hv. þm. Þorsteins Víglundssonar þegar hann gegndi embætti félags- og jafnréttismálaráðherra. Þar hefur verið unnið að kortlagningu þess málaflokks.

En þetta verður líklega stærsta verkefnið á komandi misserum á því sviði.