149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:56]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra og vil jafnframt minna á að jafnréttismál eru orðin útflutningsvara okkar Íslendinga og grunnurinn að utanríkisstefnu okkar.

Mig langar að hvetja hæstv. forsætisráðherra til að taka upp það risastóra jafnréttismál sem lenging fæðingarorlofs er, sérstaklega á vettvangi samstarfs við sveitarfélögin. Ég hvet til þess að ríkisstjórnin nái góðu samstarfi við sveitarfélögin, bæði um jöfnunarsjóðinn en líka um ýmsar aðrar aðgerðir sem áætlaðar eru í fjármálaáætlun.

Ég hafði hugsað mér að spyrja út í viðbyggingu við Stjórnarráðið en í ljósi þess að húsameistari þingsins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, er búinn að koma aðeins inn á það ætla ég að nota tímann frekar í að ræða um stafræna þjónustu. Það var vissulega mjög mikið gert á sínum tíma og við höfum stigið ákveðin skref. En það er sorglegt að sjá hvað við höfum færst aftur úr í öllum alþjóðlegum samanburði þegar kemur að stafrænni þjónustu. Hér eru svo sannarlega allir innviðir til staðar. Ég fagna þess vegna því framtaki sem nefnt er í fjármálaáætluninni og væri ágætt (Forseti hringir.) ef hæstv. forsætisráðherra gæti farið aðeins betur yfir hvað hún sjái fyrir sér í þeim efnum.