149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[18:57]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég held við höfum mikil tækifæri á sviði stafrænnar þjónustu og tek undir með hv. þingmanni um það. Íslendingar eru með góða tæknilega innviði. Við erum með mjög góðar tengingar í fjarskiptamálum. Við erum með ótrúlega hátt hlutfall á samfélagsmiðlum, líklega einhvers konar heimsmeistarar þegar kemur að þátttöku á Facebook og öðrum samfélagsmiðlum. En á sama tíma höfum við dregist aftur úr í stafrænni, opinberri þjónustu.

Ég nefndi áðan í andsvari að þar höfum við þegar séð mikinn sparnað, t.d. með því að færa samskipti ríkisins yfir á stafrænt form. Ég tel að það séu mjög mikil tækifæri í öllum ráðuneytum og allri stjórnsýslu, bæði til að einfalda stjórnsýsluna fyrir almenning, sem er mjög vel tengdur, og til að spara um leið á þeim sviðum hjá hinu opinbera. Ég horfi á það sem tækifæri til þess, á sama tíma og við eflum ákveðna aðra þætti getum við sparað á þeim sviðum. Þetta er hluti af fjórðu iðnbyltingunni þar sem við sjáum störf breytast. Þau munu líka breytast hjá hinu opinbera og við eigum að fagna þeirri þróun og líta á hana sem tækifæri í þjónustu við fólk.