149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:00]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða spurningu. Hver er samningsstaðan? Ja, það sem við erum að gera til að greiða fyrir kjarasamningum er ekkert leyndarmál. Það er að mestu leyti sprottið upp úr samtali okkar við aðila vinnumarkaðarins. Þess vegna gerum við ráð fyrir auknum stofnframlögum, t.d. þannig að almennum íbúðum fjölgi og þær tvöfaldist á tímabilinu 2020–2023. Það er vegna þess að verkalýðshreyfingin hefur lagt mikla áherslu á að efla félagslega húsnæðiskerfið.

Við gerum ráð fyrir auknum barnabótum, m.a. vegna samtals okkar við verkalýðshreyfinguna og vegna þess að gögnin okkar — ég nefndi tekjusöguna áðan — sýna að þar kreppir skórinn. Þar skiptir máli að bæta við.

Ég nefndi fæðingarorlofið. Það kemur líka upp úr samtali okkar við aðila vinnumarkaðarins, og þetta er auðvitað risastórt lífskjaramál fyrir fólkið í landinu að lengja fæðingarorlofið eins og ég nefndi hér áðan. Þannig að við erum að sýna á spilin, sýnum útfærslur sem við höfum verið að vinna að þegar kemur að tekjuskattsmálum. Það að vera með langtímaáætlanir gerir að verkum að ríkisstjórnir á hverjum tíma draga ekki óvænt kanínu upp úr hatti þegar kemur að kjarasamningum sem ríma ekki við tímasetningar fjármálaáætlunar og fjárlaga.

Ég held líka að við séum á leiðinni frá slíkum vinnubrögðum. Það hefur verið gagnrýnt, veit ég, að ríkisstjórnin sé ekki að fela sín kort, að þetta eigi allt að birtast á lokametrunum þegar fyrir liggur hvort samningar nást eða ekki. Ég held að við séum einmitt að reyna að feta okkur út úr slíkum vinnubrögðum. Við viljum vinna að hlutunum jafnóðum með aðilum vinnumarkaðarins. Það hefur verið tilgangurinn með því formlega samtali sem hefur átt sér stað á vettvangi ráðherrabústaðarins allt síðastliðið ár.

Vissulega er svigrúmið bara það sem hv. þingmaður nefndi þegar kemur að varasjóði og öðru en aðgerðirnar er náttúrlega flestar verið að kortleggja í þessari fjármálaáætlun.