149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:15]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Af því að hv. þingmaður byrjaði að ræða um skattatillögur ríkisstjórnarinnar vil ég byrja á að segja að ég er mjög ánægð með skattatillögur stjórnarinnar, enda átti ég fulltrúa í þeim hópi. Ég er ánægð með þær breytingar sem þar eru lagðar til um einmitt framsækið, þriggja þrepa skattkerfi þar sem er verið að leiðrétta þann ójöfnuð sem hefur myndast, með því að hafa ólíkar viðmiðanir á ólíkum þrepum, með því að samræma þrepin. Við breyttum strax um síðustu áramót viðmiðinu í tillögunum því að það er mikilvægt að stoppa það skattskrið sem hefur verið. Það er auðvitað aðgerð í átt til jöfnuðar. Í tillögunum er síðan lagt til að viðmiðið verði áfram samræmt en að það miðist við neysluvísitölu plús framleiðni, sem væri ákveðin tilraun líka til að tengja þróun viðmiðunarmarka í skattkerfinu við framleiðni í samfélaginu, sem ég held að sé líka mikilvægt hagstjórnartæki.

Sömuleiðis er lagt til að samsköttun verði afnumin, sem er risastór jöfnunaraðgerð, það er verið að færa beinlínis 3 milljarða frá tekjuhæsta fólkinu til lægst launaða fólksins. Með þriggja þrepa kerfi eru breytingarnar hlutfallslega miklu meiri hjá lágtekjufólki og millitekjufólki en hátekjufólki.

Þannig að já, þetta eru góðar skattkerfisbreytingar sem lagðar eru til. Ég er mjög ánægð með þá útfærslu, hvernig við léttum álögum af launafólki, því við gerum hana með jöfnuð að leiðarljósi og réttlæti að leiðarljósi og færum skattkerfið í átt til norræns skattkerfis. Ég hefði talið að við það væri mikill stuðningur í þessum sal, svo ég segi það alveg skýrt.

Síðan kom ég að því áðan í upphafsræðu minni að hér í fjármálaáætluninni er lögð fram fráviksspá í takti við ábendingar fjármálaráðs og það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir þeim sviðsmyndum sem gætu komið upp. En ég hlýt þó að ítreka að alltaf þegar við erum að vinna með langtímaáætlanir hljótum við að byggja þær á nýjustu og bestu gögnum sem við höfum. (Forseti hringir.) Það er það sem þessi fjármálaáætlun gerir.