149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:32]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Fjárfestingin er eitt, segir hv. þingmaður. Við erum þó sammála um að það er mikilvægt að gera betur í þeim málefnum. Auðvitað er það rétt hjá hv. þingmanni að ekki var endilega allt betra hér áður fyrr, en það breytir því ekki að fjárfesting hefur verið í sögulegu lágmarki eftir hrun, undir sögulegu meðaltali þegar við horfum á hlutfall fjárfestingar af vergri landsframleiðslu. Það er mikilvægt að við náum okkur á strik í því.

Síðan ætla ég að segja að ég held að hv. þingmaður ætti ekki gera lítið úr þeim möguleikum sem felast í því að innleiða aukna stafræna þjónustu til sparnaðar í hinu opinbera. Ég tel þetta eina litla dæmi sem ég nefndi hér, um tölvupóstinn sem ríkið hefur nú uppgötvað og tekið í sína þjónustu, sýni að það getur sparað verulega fjármuni. Innifalið í lögum um opinber fjármál er það sem kallað er endurmat útgjalda á íslensku máli, þ.e. að þau séu alltaf til endurskoðunar. Ég held að við getum vissulega gert betur á ýmsum sviðum í þeim málum í því að vera stöðugt að velta því fyrir okkur hvort (Forseti hringir.) einhver útgjöld eigi ekki rétt á sér. En það er verið að gera ýmislegt í þá áttina.