149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:39]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hér er verið að ræða um 0,5% yfir verðlagsþróun en ekki 0,5% hækkun, bara svo að það sé alveg skýrt í umræðunni.

Svo að ég ljúki því sem ég sagði áðan er sömuleiðis verið að eyrnamerkja sérstaklega fjármuni í þessari fjármálaáætlun til kjarabóta fyrir örorkulífeyrisþega. Af hverju gerum við það? Af hverju erum við að hugsa sérstaklega um tekjulága? Af hverju erum við að hugsa sérstaklega um ungt barnafólk? Af hverju erum við að hugsa sérstaklega um örorkulífeyrisþega? Jú, af því að við erum að vinna að félagslegum umbótum.

Hv. þingmaður kemur hér og vísar í gamla þróun í skattkerfinu sem er í raun og veru þegar búið að stöðva með þeim breytingum sem voru innleiddar um síðustu áramót, eins og hv. þingmaður hafi ekki tekið eftir því, eins og hv. þingmaður hafi ekki áttað sig á því þegar barnabætur voru hækkaðar eða viðmiðunarþrepum í skattkerfinu var breytt til að koma í veg fyrir skattskrið. Þá hlýt ég að spyrja hvar hv. þingmaður var hreinlega þegar við lukum við þær aðgerðir. Hv. þingmaður ætti að viðurkenna það og fagna því þegar gerðar eru breytingar á skattkerfinu sem auka jöfnuð, ef hún telur sig vera jafnaðarmann.