149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[19:40]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Mig langar aðeins að taka upp þráðinn frá fyrri tíma, þegar ég reyndi í þessari umræðu að ræða við hæstv. forsætisráðherra um það svigrúm sem er til staðar fyrir ríkisstjórnina til að stuðla að farsælli gerð kjarasamninga. Það sem mig langar að vita varðar þær tillögur sem komu um skattamálin sem eru á hendi hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, skattamálaráðherra: Ræður hann því algerlega sjálfur? Þar sem þetta er fjölskipað vald, menn bera ábyrgð á sínu og það virðist hafa verið tiltölulega heilagt að ráðherrar fara með sitt svið og hafa mest um það að segja hvað er heimilt innan þess sviðs.

Nú kemur fram í stjórnarsáttmálanum að lækka eigi skatta í lægri skattþrepunum og komin er fram tillaga varðandi skattalækkanir. Þetta lítur svona út: Hérna ertu með tekjulægstu, hérna ertu með tekjuhæstu. Persónuafslátturinn kemur ekkert undir þetta. Þetta kemur upp í nýtt skattþrep og það er ekki fyrr en komið er aðeins inn í skattþrepið að fólkið þarf — þetta er svona eins og hokkí-kylfa sem fer upp og svo fer hún eiginlega alveg bein út, alveg til hinna tekjuhæstu. Þetta er svona hokkí-kylfa sem þýðir að það sem er undir hokkí-kylfunni er það sem skilar sér. Það er að skila sér þegar menn eru komnir upp úr þessu skattþrepi, þá er það að skila sér fullkomlega, skattalækkunin, en ekki meðan menn eru innan þess því þá eru þeir ekki að fá fulla nýtingu á skattþrepinu. Það þýðir að það er ekki fyrr en þú ert kominn upp fyrir skattþrepið að þú færð fulla nýtingu á því og það skilar sér alveg upp tekjustigann. En þeir sem eru innan þessa skattþreps fá ekki fulla nýtingu og þeir sem eru undir því jafnvel — og þá erum við að tala um öryrkja, kannski, fólk sem lendir milli skips og bryggju, dettur í holur í kerfinu, það er ekki að fá neitt af þessu. (Forseti hringir.) Er þetta ekki eitthvað sem þarf að endurskoða? Eða ræður skattamálaráðherra þessu bara sjálfur?