149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:02]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Ríkisstjórnin leggur nú fram fjármálaáætlun sem sýnir sókn á flestum málefnasviðum en um leið varkárni og ábyrga fjármálastjórn. Heildarútgjöld ríkisins næstu fimm ár nema tæpum 5.000 milljörðum kr. Eftir mikinn samdrátt á eftirhrunsárunum var veruleg þörf á að bæta þjónustu ríkisins á ýmsum sviðum, ásamt því að auka viðhald og fjárfestingar sem mikil þörf var á. Nú þegar hægir á hagkerfinu og óvissa ríkir um ákveðin mál er mikilvægt að útgjöld séu varfærin og markviss. Heildargjöld ríkisins hækka nú minna en áður, eða um tæp 6% frá gildandi áætlun. Í ljósi óvissu er nú verulega bætt við framlag í almennan varasjóð sem hækkar um 47 milljarða kr. frá gildandi áætlun og nemur á gildistíma áætlunarinnar um 110 milljörðum.

Ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórnarmála ber ábyrgð á ráðstöfun á 345 milljörðum kr. á þessu tímabili, eða um 7% af heildarútgjöldum. Um er að ræða samgöngur og fjarskipti, sveitarfélög og byggðamál og hluta af hagsýslugerð og grunnskrám. Á þessum sviðum er að finna mikil sóknarfæri en það eru einnig veikleikar.

Ríkisstjórnin var mynduð um uppbyggingu á innviðum. Helsta sóknarfærið í samgöngumálum sem við erum að vinna eftir er að stuðla að fækkun slysa og því er áhrifaríkast að endurbæta vegakerfið, sem lætur víða á sjá í kjölfar aukinnar umferðar. Þar ber hæst 20 milljarða aukningu til framkvæmda á vegakerfinu. Er það viðbót við 16,5 milljarða aukningu frá gildandi áætlun og tæplega 4 milljarða kr. viðbót sem ráðstafað var úr almennum varasjóði á síðasta ári til viðhalds, eða samtals rúmlega 40 milljarðar á þessu tímabili. Stórsókn er nú fram undan en á tímabili fjármálaáætlunarinnar verður ríflega 120 milljörðum kr. varið til framkvæmda á vegakerfinu. Vegfarendur munu því innan tíðar upplifa meira öryggi í umferðinni.

Framkvæmdir á vegakerfinu verða fjármagnaðar úr ríkissjóði. Eftir sem áður er vinna í gangi við skoðun á fjármögnun samgöngukerfisins í samræmi við vilja Alþingis sem kom fram í samþykktri samgönguáætlun nú fyrr í vetur. Stefni ég á að leggja fram endurskoðaða fimm ára aðgerðaáætlun samgönguáætlunar á komandi hausti og vænti einskis annars en góðs samtals í þinginu um það mál.

Þá er fyrirliggjandi samvinna stjórnvalda og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Unnið verður að samgönguinnviðum á því svæði í framkvæmdum á stofnvegum, í borgarlínu og á hjólastígum, með öðrum orðum fyrir fjölbreytta ferðamáta. Þá er unnið að samþættri stefnu um almenningssamgöngur til að hámarka nýtingu fjármagns og ná fram aukinni og bættri þjónustu.

Síðast en ekki síst vil ég nefna endurskipulagningu á rekstri alþjóðaflugvalla landsins og uppbyggingu þeirra með það að markmiði að þeir geti betur nýst sem varaflugvellir. Flugrekendur hafa kallað eftir aukinni afkastagetu þeirra, en stefnt er að því að Isavia taki yfir rekstur og viðhald allra alþjóðaflugvalla landsins frá 1. janúar nk., samanber nýsamþykkta samgönguáætlun.

Á sviði byggðamála er enn sótt fram og gert er ráð fyrir að 250 millj. kr. komi til viðbótar í byggðaáætlun og sóknaráætlanir landshluta á þessu tímabili. Þannig verða yfir 10 milljarðar til ráðstöfunar til byggðamála á gildistíma fjármálaáætlunar. Unnið er markvisst að framkvæmd byggðaáætlunar sem samþykkt var í þinginu á síðasta ári, en meðal örfárra aðgerða má nefna nýjan lánaflokk Byggðastofnunar til stuðnings við nýsköpun á landsbyggðinni.

Eins og fjármálaráðherra kom inn á í framsögu sinni fyrr í dag er sú varúðarráðstöfun gerð að halda framlögum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga óbreyttum frá gildandi fjárlögum árin 2020 og 2021. Samtal við forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga er um þessar mundir að hefjast og höfum við tíma til þess áður en við afgreiðum áætlunina frá þinginu.

Unnið er að gerð fyrstu stefnumótunaráætlunar stjórnvalda um málefni sveitarfélaga. Leiðarljós þeirrar vinnu er sjálfsstjórn sveitarfélaga og ábyrgð gagnvart íbúum, sveitarstjórnarstigið sem hornsteinn lýðræðis og mannréttinda og sjálfbærni og að sjónarmið um heildarhagsmuni sveitarstjórnarstigsins og landsins alls séu í fyrirrúmi. Þá stendur til að stuðningur jöfnunarsjóðs við sameiningu sveitarfélaga verði aukinn umtalsvert á tímabili fjármálaáætlunarinnar.

Ég sé að á tíma minn gengur nokkuð hratt þannig að ég ætla koma kannski seinna í kvöld inn á fjarskiptin og þjóðskrá, en lýk þessu á þeim nótum að hið árangursríka verkefni, Ísland ljóstengt, heldur áfram og mun því ljúka árið 2021. Verkefnið gengur samkvæmt áætlun og hefur leitt af sér mikla fjölgun staðbundinna ljósleiðarakerfa. Árið 2021 verður lokið við að úthluta styrkjum og tengja (Forseti hringir.) þar með yfir 5.500 staði, sem eru um 1.500 fleiri staðir en stóð til upphaflega, sem dæmi um hvað verkefnið er árangursríkt.