149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:15]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Við lestur fjármálaáætlunar má líta fögur orð um stefnumótandi áætlun til 15 ára um málefni sveitarfélaga. Talað er um sjálfbærni, vænkandi hag íbúa, lækkun skulda og sameiningar. Þetta hljómar allt prýðilega. En hvað gerir ríkisstjórnin þegar kemur að framlagi til sveitarfélaga, ef marka má þriggja daga umræðu um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem mögulega er gjörbreytt miðað við ræðu hæstv. sveitarstjórnarráðherra hér rétt áðan? Jú, ríkisstjórnin byrjar á því að frysta framlag ríkisins til jöfnunarsjóðs og hefur Samband sveitarfélaga reiknað tekjutapið um 3,2 milljarða kr. á þessum fyrstu tveimur árum.

Til þess að setja þessa fjárhæð í samhengi má nefna að samkvæmt fjárlögum 2019 eru ríkisframlög til málefna fatlaðs fólks á sveitarstjórnarstiginu um 1,8 milljarðar og samkvæmt fjárlögum er reiknað með að tekjur ríkissjóðs af gistináttagjaldinu einu saman muni nema 1,3 milljörðum. Skerðingin til sveitarfélaga á þessum tveimur árum er 3,2 milljarðar.

Herra forseti. Svona virðist ríkisstjórninni rétt að hefja vinnu við að gera sveitarfélögin sjálfbærari svo þau tengi betur við það sem ríkisstjórnin kallar raunverulega útgjaldaþörf sveitarfélaganna. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur eðlilega gagnrýnt þessi áform ríkisstjórnarinnar harðlega, enda leiðir þetta ekki til annars en skertrar þjónustu við íbúa, þjónustu við fatlaða, þjónustu við börn, ungmenni, eldri borgara — já, þá sem eru í hvað viðkvæmastri stöðu.

Og á hvaða svæðum bitnar þetta harðast? Jú, herra forseti, á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Það eru þessi svæði sem tapa áberandi mest. Aftur tapa þeir mest sem standa verst.

Herra forseti. Það þarf að gera meira en að búa til sóknaráætlanir. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Telur hann þessi áform vænleg? Er eitthvað að marka þessa fjármálaáætlun eða er kannski ekkert að marka þessa fjármálaáætlun?