149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:26]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessi svör. Hitt atriðið sem var boðað í títtnefndri skýrslu var hin svokallaða skoska leið. Þá er líka talað um að árið 2020 taki hún gildi. Samgönguáætlun var samþykkt af 48 þingmönnum og fékk mjög góðan stuðning hér í þingsal. Því vil ég spyrja um þá leið, skosku leiðina. Sér ráðherrann fyrir sér vinnu við að innleiða hana á næstu fáu mánuðum, þegar níu mánuðir eru til áramóta?

Síðan vil ég kannski rétt í lokin, þar sem þetta er ákaflega stuttur tími, spyrja um netöryggismálin, sem ég tel vera eina stærstu ógnunina við okkar samfélag og hinn vestræna heim, hvernig þeim sé fyrir komið á næstu árum í ríkisfjármálaáætluninni og fjárveitingum til þeirra mála.

Við erum á mjög góðum stað varðandi fjarskipti og ljósleiðaravæðingu eins og þekkt er, hvað þar hefur byggst upp á síðustu árum, en netöryggismálin eru, held ég, að verða eitt af allra stærstu málum (Forseti hringir.) samfélaga á Vesturlöndum, og væri kannski áhugavert að fá smásýn á þau.