149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:50]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka líka hv. þingmanni fyrir að spyrja um þetta. Þetta er eitt af því sem ég kom ekki almennilega að. Svarið er: Nei. Við erum sem sagt ekki með það fjármagnað. Til að hægt sé að fara í þau verkefni sem við erum með á döfinni — og nokkur frumvörp nefndi hv. þingmaður — þarf einmitt að uppfæra kerfi okkar hjá þjóðskrá. Til þess þarf fjármuni. Þjóðskrá hefur á liðnum árum fengið tímabundnar fjárhæðir sem hafa síðan fallið niður og eru ekki til að mynda í ár. Til að þessi verkefni geti orðið að veruleika eins fljótt og auðið er eftir að þau hafa fengið eðlilega meðferð í þinginu er það eitt af verkefnunum sem við þurfum að fara í.

Örstutt varðandi þróunarfélag eða, eins og er talið upp, aðrar eignir sem við erum að skoða er það í vinnslu og verður án efa rætt í þinginu þegar þar að kemur. (Forseti hringir.) Ég get ekki farið dýpra í það í augnablikinu.