149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:57]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Ég vil koma aðeins að samgöngumálunum. Við bíðum eftir því að sjálfsögðu að vegakerfið verði í betra ástandi þegar þessari áætlun lýkur sem við ræðum hér. Ég vildi einmitt spyrja hæstv. ráðherra út í Reykjanesbrautina og Suðurlandsveginn og Vesturlandsveginn. Þetta eru samgöngumannvirki þar sem brýnt er að ráðast í framkvæmdir eins og við þekkjum og hefur verið rætt í samgöngunefnd. Nú ber að fagna því að það á að bæta við 4 milljörðum árlega í framkvæmdir, en ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort í lok þessa tímabils muni þeir sem aka þessa mikilvægu og fjölförnu vegi sjá þess merki að þar sé verið að bæta í. Mun Reykjanesbrautin verða tvöfölduð að fjórum árum liðnum, svo dæmi sé tekið? Það væri gott að fá það fram hjá ráðherra hver staðan verður hvað þessa vegi varðar.

Ég vil einnig í lokin spyrja hæstv. ráðherra út í Herjólf. Nú er komið fram að það eru tafir á afhendingu skipsins. Það sjást ekki merki í þessari fjármálaáætlun að það eigi að greiða þá upphæð sem er farið fram á aukalega, 1 milljarð kr. Ég vildi heyra frá ráðherra með stöðuna á því verkefni og auk þess um gamla Herjólf. Kemur hann til með að vera rekinn samhliða þessari nýju ferju? Ef svo er, er þá ekki rétt að getið sé um það í þessari áætlun hvernig eigi að fjármagna það?