149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég var nú kannski ekki að falast eftir því hvort það yrði búið að ljúka þessum framkvæmdum öllum sem ég nefndi, þ.e. Reykjanesbrautinni, Vesturlandsveginum og Suðurlandsveginum, heldur hver staðan yrði á þessum verkefnum að lokinni þessari áætlun. Ef ráðherra gæti farið aðeins nánar út í það þá væri það ágætt.

Ég held að það sé mjög mikilvægt varðandi Herjólf að það liggi fyrir með hvaða hætti skipið kemur til með að verða notað. Hæstv. ráðherra nefnir að það verði til taks ef þess þarf. Ég hef heyrt af hugmyndum Eyjamanna um að það verði jafnvel notað samhliða nýju ferjunni, sérstaklega fyrir flutninga. Það væri gott að heyra frá ráðherra með það. Gamli Herjólfur hefur reynst ákaflega vel, er gott sjóskip og væri eftirsjá af honum ef hann færi héðan af landi brott eða í önnur verkefni. (Forseti hringir.) Það væri gott að fá þetta fram hjá ráðherra.