149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:03]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það stendur reyndar í fjármálaáætluninni að eftir að ný Vestmannaeyjaferja, þ.e. nýr Herjólfur, verður tekin í notkun verði gamla ferjan, sem er vissulega orðin gömul en ágætisskip, notuð sem varaskip og til annarra verkefna, a.m.k. fyrst um sinn á meðan reynsla er að komast á nýju ferjuna. Ef það reynist svo að nýja ferjan anni ekki eftirspurn og það verði svo mikil traffík að menn vilji reka tvö skip, þá þarf að taka það sérstaklega upp. Við erum auðvitað með niðurgreiddan samning um þessa hluti á þessu sviði. Það getur líka vel verið að einhver hafi hug á því að reka gömlu ferjuna þar við hliðina. Það mun þá bara koma til skoðunar þegar það gerist, en ég veit svo sem ekki til þess. Loforð okkar er fyrst og fremst að þetta sé varaskip til taks á meðan reynsla er að komast á nýju ferjuna.

Varðandi stöðuna á framkvæmdunum er kannski rétt að geta þess að þetta er jú fjármálaáætlun til fimm ára og ég hef boðað í henni að við munum koma fram með nýja fimm ára áætlun í haust. Þá verður kannski hægt að sjá betur og nákvæmlegar stöðu á einstökum málum (Forseti hringir.) eftir einstökum árum, þar á meðal þeim verkefnum sem hv. þingmaður spyr um.