149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:05]
Horfa

Einar Kárason (Sf):

Herra forseti. Ég hef blaðað í þessari fjármálaáætlun af miklum áhuga. Í samgöngukafla er mjög margt sem maður hefði viljað sjá gert betur en gerir sér að sjálfsögðu fullkomlega ljóst að við búum í stóru landi. Við erum fá og landið er fjöllótt og við þurfum að brúa stórár o.s.frv., svoleiðis að það verður ekki á allt kosið. Við höfum hins vegar sýnt í gegnum áratugina sæmilegan dugnað við að koma okkur upp flugvöllum víða um land. Þó að, eins og tekið er fram í fjármálaáætluninni, dregist hafi saman á undanförnum árum allt til nýframkvæmda í þeim efnum þá sakna ég þess aðeins að hvergi er getið um það í áætluninni að eitthvað eigi að gera í flugvallarmálum höfuðborgarsvæðisins.

Eins og kunnugt er höfum við Íslendingar aldrei ráðist í það stórvirki upp á eigin spýtur að leggja flugbrautir fyrir höfuðborgarsvæðið. Við notumst enn þá við gamlan herflugvöll sem Bretar byggðu á stríðsárunum og er hér inni í miðri borg og stendur skipulagi borgarinnar, og reyndar samgöngum öllum í borginni, mjög fyrir þrifum. Ég þykist vita að samgönguráðherra muni svara því til að þetta mál sé í nefnd, það hafi lengi verið í nefnd.

Ég vil spyrja hvort ekki megi gera ráð fyrir því að það komi eitthvað pósitíft út úr þeirri nefnd, eins og t.d. það að leggja þurfi nýjar flugbrautir einhvers staðar annars staðar eða í það minnsta byggja nýjan flugstöð í staðinn fyrir þá skúraþyrpingu sem nú er notuð til þess.