149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:10]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég dreg ekki í efa, og tek undir það með hv. þingmanni, mikla getu okkar Íslendinga til að framkvæma hluti hratt og vel. Við þurfum hins vegar að hafa í huga ef um er að ræða að færa innanlandsflugið að ávinningur af því að færa það verður að nýtast öllum á Íslandi, líka landsbyggðinni, og hann má gjarnan vera þeim þáttum búinn að tengjast á einhvern hátt alþjóðaflugvöllum þannig að dreifing ferðamanna beint frá alþjóðaflugvellinum út á land sé tryggð, eins og við höfum séð með góðum ávinningi bæði í Noregi og Finnlandi. Það er að mörgu að hyggja og það þarf að skipuleggja hlutina betur ef við ætlum að nýta fjármagnið vel. En ég er alveg sammála hv. þingmanni að við getum gert hlutina hratt og vel.

Um Grænland er það að segja að ég held að það hafi sprungið tvær ríkisstjórnir á síðustu mánuðum út af ákvörðun um að byggja nýja flugvelli í staðinn fyrir að nota gömlu amerísku herflugvellina. Það er því varasamt og ég legg það ekki til hér.