149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:16]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég spyr af því að þetta er gríðarlega mikilvægt mál — það er augljóslega efnahagslega hagkvæmt, eins og hæstv. ráðherra bendir á — en ég sé ekki að verið sé að framfylgja þeim tillögum sem lagðar voru fram í skýrslunni. Þar er sagt að stuðningur verði að vera við innviðauppbyggingu. Þá erum við að tala um innviðauppbyggingu fyrir 100.000 bíla, væntanlega rafknúna bíla, á þessum 30 árum. Ég sé ekkert, hvorki í þessari áætlun né í samgönguáætlun, um að sérstaklega sé byrjað á því, eins og ég nefndi áðan. Við erum með 10.000–20.000 nýskráða bíla. Við erum langt frá því að vera með helming af nýskráðum bílum sem rafbíla þannig að ef við gerum ráð fyrir að það séu 20.000 nýir bílar, 10.000 séu rafbílar, þá tekur það 10 ár að ná 100.000 bílum — og við erum ekki nálægt því að vera í því magni eins og er.