149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:17]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Við erum með sömu ívilnanir og í Noregi og þeim gengur býsna vel þannig að ég held að það þurfi ekki mikið til að boltinn fari að rúlla mjög hratt hér. Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er ekki í þessum samgöngupakka þannig að það er ekki von að hv. þingmaður sjái þá hluti þar. Þeir eru hjá umhverfisráðherra eins og hv. þingmaður veit auðvitað. Þar eru stuðningsaðgerðir til uppbyggingar innviða.

En svo er það líka þannig að atvinnulífið þarf auðvitað að koma með. Ég hef væntingar til þess að það sé akkúrat það sem er að fara að gerast, að menn séu að fara að takast á við það, vegna þess að það er efnahagslega jákvætt fyrir þá líka að koma upp hleðslustöðvum og slíkum hlutum. Það er verið að hvetja til notkunar fleiri vistvænna orkugjafa, eins og til að mynda metansins, að nýta það. Menn hafa bent á að þetta muni ekki ganga vel til fulls fyrr en nægilega góðir vetnisbílar verði líka komnir á götuna, sem ég hef fulla trú á að muni gerast og þá munu hlutirnir gerast mjög hratt.