149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:18]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ræðuna og upplýsingarnar sem fram hafa komið í umræðunni. Eðli máls samkvæmt hefur umræðan kannski snúist talsvert um samgöngumálin og orkuskiptin. En mig langar að beina sjónum aðeins að sveitarstjórnarstiginu, að hluta til að þeirri umræðu sem verið hefur um þá frystingu framlaga til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, en kannski í víðara samhengi hef ég haft ákveðnar áhyggjur af nálgun stjórnvalda að sveitarstjórnarstiginu og í umræðunni almennt.

Lengi hefur verið kvartað yfir því af hálfu sveitarstjórnarstigsins að bæði séu tekjur sveitarstjórnanna fábrotnar, viðamikil verkefni hafi verið flutt yfir til sveitarstjórnarstigsins en aldrei verið fjármögnuð með fullnægjandi hætti og svo bætist inn í það umræða núna um frystingu framlaga úr jöfnunarsjóði og mætti reyndar vísa inn í það líka hugleiðingum t.d. Sjálfstæðismanna um lækkun útsvars sem framlag inn í kjaraviðræður og eitthvað þess háttar.

En það virðist vera sem horft sé til sveitarstjórnarstigsins sem einhvers konar uppsprettu hagræðingarmöguleika í ríkisfjármálum. Þá horfir maður á nýbirt uppgjör Hagstofunnar á afkomu hins opinbera þar sem m.a. kemur mjög glögglega fram að afkoma sveitarstjórnarstigsins er með öllu ófullnægjandi á undanförnum árum og virðist sem yfirstandandi efnahagsuppgangur hafi skilað sveitarstjórnarstiginu miklu minni hlutfallslegum afkomubata en hinu opinbera.

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Er einhver vinna í gangi til að styrkja sérstaklega sveitarstjórnarstigið varðandi mögulega stærð sveitarfélaga o.s.frv. og gera þau betur í stakk búin til að sinna sínum lögbundnu verkefnum? Er einhver vinna í gangi varðandi endurskoðun á fjármögnun (Forseti hringir.) sveitarstjórnarstigsins í breiðara samhengi?