149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:24]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Jú, það er, má segja, kannski viðvarandi samtal milli ríkis og sveitarfélaga um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Óskir sveitarfélaganna hafa einmitt staðið til þess að fá hlutdeild í öðrum sköttum til að standa með breiðari hætti undir ýmsu, þau geta kannski nýtt sér einmitt frekar veltu fyrirtækja eins og áður var til, skattur sem var veltuskattur, og var ekki mjög vinsæll.

En það er rétt að sú umræða er viðvarandi og það er mjög mikilvægt að ríkið og sveitarfélögin eigi heilbrigð samskipti á þeim grunni. Þetta eru tvö jafnstæð stjórnsýslustig í landinu. Ég vona að það muni takast þrátt fyrir svona smáárekstra á síðustu vikum út af soltlu, eins og einhver sagði.

Varðandi fjárhagslega hvata er það einmitt hugmyndin að nýta jöfnunarsjóðinn sem fjárhagslegan hvata. Við höfum verið að smíða reglur sem lúta bæði að því að styrkja vaxtarsveitarfélögin, en líka til að koma til móts við sveitarfélög sem eru að sameinast, til að (Forseti hringir.) lækka skuldir þeirra. En líka á öðrum þáttum þannig að það sé raunverulega fjárhagslegur hvati að fara í það ferli.

Það mun skýrast í vinnu framtíðarnefndarinnar og enda hér með þingsályktunartillögu um stefnumótun ríkis í málefnum sveitarfélaga.