149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:25]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að tala um fjármálaáætlun. Í henni kemur fram að frá 2012–2018 hefur orðið gífurleg aukning á umferð; á höfuðborgarsvæðinu einu um 31%, á hringveginum um 50% og á Mýrdalssandi um 270%. Það sem kemur mér líka dálítið á óvart í þessu er fækkun einbreiðra brúa á hringveginum, hún virðist ætla að vera í hægagangi. Það veldur mér áhyggjum. Það sýnir viðhaldsþörfina á þessum vegum að þegar maður keyrir hér á höfuðborgarsvæðinu á malbikuðum vegum hefur maður áhyggjur af því að lenda ofan í holu eftir holu. Maður lendir í því næstum á hverjum einasta degi að þurfa að passa sérstaklega að skemma bílinn ekki vegna þess að vegirnir eru gjörsamlega viðhaldslausir.

Ég vil fá svör frá ráðherra. Einbreiðar brýr og lélegt viðhald vega, þetta skapar gífurlega hættu í umferðinni. Við megum ekki við því að fjölga umferðarslysum. En miðað við óbreytt ástand fjölgar umferðarslysum og það er dýrt fyrir þjóðfélagið. Ég spyr: Hver er áætlunin? Eru veggjöld áætluð? Viðhaldsþörfin er 50–60 milljarðar. Eða á að sjá til þess að það sem átti að fara í þjóðarsjóð verði notað í uppbyggingu vega?