149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:57]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Þá er það landbúnaðarmínútan. Í kaflanum „Framtíðarsýn og meginmarkmið“ segir, með leyfi forseta:

„Framtíðarsýn stjórnvalda er að á Íslandi sé stunduð heilnæm og sjálfbær matvælaframleiðsla í sveitum landsins. Forsenda þess er að jafnvægi ríki í framleiðslu, skilvirku eftirliti og nýsköpun.“

Og svo síðar:

„Mótaðir verði hvatar og stuðningur til að draga úr umhverfisáhrifum matvælaframleiðslu og kolefnisjafna landbúnaðinn.“

Í ljósi orða hæstv. ráðherra hér áðan um aðdáun á meitluðum texta og óbeit á froðu væri gott að heyra núna í svari hæstv. ráðherra hvað liggi hér undir. Hér hefur aðeins verið komið inn á sauðfjárræktina, en þetta er náttúrlega miklu stærra mál en hún. „Heilnæm og sjálfbær matvælaframleiðsla“ er gríðarlega gott markmið sem við öll getum stefnt að, og eins það að draga úr umhverfisáhrifum matvælaframleiðslu og kolefnisjafna landbúnaðinn.