149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:03]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég ætla ekki að standa hér og benda, það er ódýrt að gera það. Erfiðara er að koma með tillögur að úrbótum og því vil ég leggja það til að hæstv. ráðherra finni fjármuni og aðgreini þá sérstaklega í rekstri Hafrannsóknastofnunar og Matvælastofnunar og setji á fót, mögulega með stjórnarfrumvarpi, formlegan starfsvettvang milli stofnananna sem ætlað væri að auka eftirlit með fiskeldi. Hafró sæi þá um vísindahliðina en Matvælastofnun, og hugsanlega þá í samvinnu við Fiskistofu, um eftirlitið. Þessir fjármunir mega þá ekki fara í annan rekstur.

Miðað við það mál sem ég rakti hér á undan er flestum ljóst að hvorug stofnunin getur skilað sínu skilgreinda hlutverki hvað varðar öryggisvöktun, rannsóknir og uppbyggingu fiskeldis. Starfsmenn eru of fáir og hefur ekki fjölgað í samræmi við aukin umsvif greinarinnar. Miðað við fyrirliggjandi gögn um árlegt fjársvelti beggja stofnananna er hjákátlegt að ætla að þær geti sinnt sínu lögbundna hlutverki eins og vera ber. Ráðherra hlýtur að hafa metnað fyrir sinn málaflokk. Ég trúi ekki öðru en að hægt sé að koma skikki á þessa hluti.